Ostaveisla

2 ostar ( þessir hringlóttu kryddostar)
vínber tvo liti
paprika rauða td
3-4 msk ananaskurl
1 1/2 dós sýrður rjómi 10%
Má setja smá purrlauk ef vill.

Ostarnir skornir í litla teninga
vínberin skorin í tvennt og steinhreinsuð
paprikan skorin smátt

þessu er svo öllu hrært saman með sýrða rjómanum og ananas kurlið sett svo við.

Hrísgrjónasalat

1 bolli hýðishrísgrjón (eða bygggrjón, á ensku: Pearl Barley)
1 Avacado, vel þroskað, saxað gróft (sprautið smávegis af sítrónusafa yfir bitana svo þeir verði ekki brúnir)
4-5 kirsuberjatómatar skornir í helminga
3-4 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir smátt
2 msk furunetur, þurrristaðar á pönnu
1 msk sólblómafræ, þurrisstuð á pönnu
1/2 gul eða appelsínugul paprika, skorin í bita


Blandið öllu saman varlega og berið fram kalt

Sætar kartöflur í ofni

Uppskriftin er í ca 1 meðalstórt eldfast mót.  Sætar kartöflur eru soðnar í vatni eins og venjulegar kartöflur, en þurfa þó heldur styttri eldunartíma.

2-3 bollar maukaðar soðnar sætar kartöflur
1 tsk vanillusykur
½ tsk salt
1 bolli sykur ( má vera minna)
½ bolli smjör
½ tsk lyftiduft
2 egg

Þessu er öllu blandað saman í mixer, eða kartöflurnar sneiddar smátt og öllu blandað saman í hrærivél.  Sett í eldfast mót og bakað í 20 mín við 180°C.

Síðan er blandað saman:

3 tsk brætt smjör
¼ bolli púðursykur
1 og ¼ bolli kornflakes
½ bolli muldar Hersley hnetur

Þessu er blandað saman og sett ofan á í eldfasta mótið  og bakað áfram í 20 mín.

Þetta er aaaaaalgjört sælgæti Grin

Lambakótelettur með kryddsmjöri (fyrir 4)

12 lambakótilettur
100 g smjör
1 msk steinselja, söxuð
1 tsk ferskt rósmarín, saxað
1 hvítlauksgeiri, pressaður
nýmalaður pipar
salt
olía til penslunar

Best er að kóteletturnar séu fremur þykkt skornar. Smjörið hrært mjúkt með kryddjurtum, hvítlauk, pipar og salti, rúllað í lengju, vafið í smjörpappír og kælt þar til það er stíft. Kjötið penslað með örlítilli olíu, kryddað með pipar og salti og steikt á grilli, vel heitri grillpönnu eða húðaðri steikarpönnu í 3-4 mínútur á hvorri hlið, eða eftir þykkt og smekk. Settar á heitt fat, smjörið skorið í sneiðar og ein sneið sett á hverja kótelettu. Borið fram strax, t.d. með grillsteiktum tómötum og gratíneruðum eða bökuðum kartöflum.

Frábær pottréttur

Þessi réttur er svooooo einfaldur að það ætti að banna hann LoL

Súpukjöt (eða annað kjöt....framhryggjasneiðar td)  er sett í steikarapott, kryddað vel með season all og látið inn í ofn í ca. 40 mín. 200°c.
Þá er slatta af blómkáli, broccoli, gulrótum og jafnvel kartöflum skellt ofan á kjötið, kryddað með aromat og ferlega gott að nota líka herbamare jurtasalt.  Bætið í vatni og látið malla áfram í ca. 1 klst.

Magnið af grænmeti verður alveg að fara að ykkar smekk.....best að skera kartöflurnar og gulræturnar í skífur....og rífa hitt niður heldur smátt Smile

Soðið sem kemur af þessu má svo frysta bara og nota í sósu síðar Smile

Verði ykkur að góðu Grin

Eplagóðgæti

4 meðalstór epli, afhýdd, kjarnhreinsuð og skorin í bita
1 ¼ dl sykur
1 tsk kanill
1 ½ dl hveiti
1/2 tsk salt
1 ¼ dl mulið kornflex
55 gr smjör

Eplin sett í vel smurt eldfast mót. Helmingnum af sykrinum og öllum kanilnum stráð yfir. Hveiti, salti og afgangnum af sykrinum hrært saman ásamt kornflexi. Dreift yfir eplin. Bakað við 200 gráðu hita í ca 30 mín. Berið fram með ís eða þeyttum rjóma.

Súrmjólkurfrómas með jarðarberjum

¾ l súrmjólk
3 msk sykur
2 dl rjómi
1 msk vanillusykur
8 matarlímsblöð

Setjið matarlímið í bleyti.  Þeytið súrmjólkina með sykri og vanillusykri. Þeytið rjómann og blandið saman við súrmjólkina.  Kreistið vatnið úr matarlíminu og bræðið yfir vægum hita (eða í örbylgju)
Hellið matarlíminu (kældu) í mjórri bunu saman við súrmjólkina, hrærið stanslaust svo ekki komi matarlímskögglar.  Hellið í skál og kælið í ísskáp.
Berið fram með ferskum jarðarberjum og rjóma

Kjúklingapasta

5 dl soðnar pastaskrúfur
2 dl maís úr dós
1 grillaður kjúklingur
200 g léttsoðið spergilkál
1/2 saxaður blaðlaukur (hvíti hlutinn)
1 dós kjúklingasúpa
1 msk. tómatkraftur (tomatpuree)
1 pressaður hvítlauksgeiri
1 dl rjómi
150 g rifinn óðalsostur
4 msk. parmesan
 
Smyrjið eldfast mót og setjið pastaskrúfurnar í mótið. Dreifið maísnum yfir, skerið kjúklingakjötið smátt og dreifið því yfir maísinn. Setjið spergilkálið ofan á og dreifið blaðlauknum yfir. Blandið saman súpunni, tómatkrafti, hvítlauk og rjóma og hellið yfir. Rífið ostinn, blandið parmesan saman við hann og stráið yfir réttinn. Bakið í 15-20 mínútur við 200 gráður. Berið fram með hvítlauksbrauði.

Kjúklingabringur í tortillakökum

3 kjúklingabringur
1/2 laukur 
1/2 - 1 rauðlaukur 
1 rauð paprika 
1 græn paprika 
1 dós salsasósa
1/2 dós ostasósa
sýrður rjómi (getur verið gott að hafa e-n bragðbættann)
rifinn ostur

Kjúklingurinn er steiktur á pönnu og kryddaður eftir smekk, sett til hliðar.
Laukur og papríka steikt, salsasósunni og ostasósunni bætt þar út í og látið malla í smá stund. Kjúklingnum bætt við.

Sett í Tortillakökurnar og raðað í eldfast mót (einnig hægt að raða þessu upp eins og lasagna),  áður en þessu er stungið inn í ofn að þá er sýrður rjómi og rifinn ostur sett yfir, einnig getur verið gott að strá t.d. graslauk yfir ef sýrði rjóminn er “hreinn”.

Ofninn hitaður í 200°c og látið vera þar til osturinn er bráðnaður. 

Meðlæti:

Hrísgrjón
Ferskt salat

Kjúllaréttur a la Alva

1 Campells kjúklingasúpa

1 dós grænn aspas

Karrý

1 kúfuð msk. majones

beinlaus kjúklingur.

Allt hrært saman og sett í eldfast mót eða í tartalettur, rifinn ostur settur yfir og bakað í ofni við 180 gráður þar til allt er orðið vel heitt og osturinn kraumar.

Þessi réttur er í boði Muse Smile


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband